Yfirbyggðir hjólastígar Besta lausnin??

Ég hef nokkrum sinnum bloggað um að gera yfirbyggða hjólastíga um höfuðborgarsvæðið. Það er ekki nóg að opna einhverjar leiðir sem eru ófærar hálft árið eða meira vegna veðurs og annarra aðstæðna. Þannig verður hjólamennskan bara góðviðrissport fyrir flesta. Með því að byggja yfir hjólastígana er hægt að gera þetta að gagnlegum samgöngumáta sem nýtist allt árið. Þannig er hægt að spara í bílakaupum og eldsneyti svo um munar fyrir einstaklingana og þjóðfélagið. Umferðarálag minnkar þá sem og viðhald á gatnakerfinu.

Kannski maður ýti betur við þessu eftir kosningar þegar Besti flokkurinn er kominn til valda í borginni. Það væri spennandi að komast að hvaða framtíð þeir sjá í samgöngumálum borgarinnar. Verða yfirbyggðir hjólastígar hluti af Bestu lausninni?


mbl.is Hljólaleiðir lengdar í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ertu að grínast hérna! Yfirbygðir hjólreiðastígar?? Kannski spurning um að kunna að klæða sig bara? Svo er hægt að fá nagledekk á hjólin líka. Hvað heldur þú að þetta mundi kosta og hver á að borga þetta?

óli (IP-tala skráð) 25.5.2010 kl. 22:36

2 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæll Óli. Þetta kostar helling, gæti orðið næstum eins dýrt og tónlistarhúsið á höfninni. Hefði ekki alveg eins verið hægt að finna einhvern stað þar sem tónlistarmenn hefðu getað spilað undir berum himni á góðviðrisdögum? Yfirbyggðir hjólastígar eru líklegri til að koma mörgum að gagni og spara mikið fé til lengri tíma litið. Stofnkostnaðurinn sparast með minna gatnaviðhaldi og öðrum nýbyggingum í samgöngukerfinu. En það má líka hugsa sér að selja ýmsar óþarfa eignir sem eru lítið eða ekkert nýttar og nota innkomuna fyrir þær í þetta. Var ekki borgin búin að lofa nokkur hundruð milljónum á ári í tónlistarhúsið? Selja sig út úr þeim pakka. Viðey, er ástæða til að borgin eigi hana? Höfði, má hann ekki fara líka? Sundahöfnin, þar eru margir hektarar af milljarðavirði landi notaðir undir bílastæði fyrir bílainnflytjendur. Þessi bílastæði má flytja upp á Grundartanga. Selja svo lóðir þarna fyrir arðvænlegri starfsemi. Meira að segja OR er með stórt svæði hjá Eimskip fyrir lager undir hitaveiturör og annað dót þarna í Sundahöfninni. Er ekki til einhver ódýrari staður til að geyma rör? Það þarf að skipuleggja skipulagmál borgarinnar miklu betur, þannig má spara peninga og afla tekna. Þetta eru bara örfá dæmi. Ég býst við að miklu víðar megi hagræða og betrumbæta til að finna peninga í þörf verkefni.

Jón Pétur Líndal, 26.5.2010 kl. 08:29

3 Smámynd: Kári Harðarson

1. Þau myndu kosta helling.

2. Þetta hefur hvergi verið reynt.  Af hverju ekki?   (Þarf að skoða).

3. Yfirbyggingin yrði ljót og útötuð í Graffiti.

4. Þrif inní göngunum yrðu erfið, þar yrði skítur, ryk og hlandpollar.

5. Veðrið er miklu betra en þú gefur í skyn, það eru ca. 10 dagar á ári þar sem ekki er hægt að hjóla vegna veðurs, ekki 180.    Ef þú kaupir þér almennilegan hlífðarfatnað ertu kominn "í göng".

Kári Harðarson, 26.5.2010 kl. 11:35

4 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæll Kári og takk fyrir athugasemdina.

Kannski hefur þetta hvergi verið reynt. Ég hef ekki gáð að því. Kannski er það af því að engum hafi dottið þetta í hug fyrr. En það eru til svipaðir hlutir eins og t.d. það sem kaninn kallar "skywalk" sem eru yfirbyggðar göngugötur og brýr innan miðbæjarsvæða í nokkrum borgum í USA. Þetta kerfi er notað þar svo léttara sé fyrir fólk að labba um þessi svæði á milli verslana, veitingastaða og annars sem boðið er upp á, án þess að þurfa að fara út á götu eða vera innan um aðra umferð.

Það er auðvitað fyrir hönnuði að leysa útlitið á þessu, ég geri ráð fyrir að eitthvað af þessu yrði niðurgrafið og annað á súlum til að fækka brekkum og gera hjólamennskuna auðveldari, þannig lagað séð yrði þetta uppbyggt á svipaðan hátt og önnur umferðarmannvirki.

Þetta yrði bara þrifið innan með vélknúnum götusópum annað slagið og svo er hægt að kaupa græju sem hægt er að keyra gegn um svona göng og heilsmúla þau í einni umferð ef þörf krefur.

En ég er sammála því að það er viss hætta á að siðmenning Íslendinga sé á svo lágu plani að þeir kroti þetta út og mígi og skíti í hverju horni þegar þeim dettur í hug. En það er bara allt annað vandamál sem þarf að taka á sérstaklega. Það er ekki hægt að láta svoleiðis vanþroska móta skipulag og samgöngumál framtíðarinnar. Kannski mætti hlaða með torfi og grjóti að þessum hjólagöngum að utanverðu í einhverjum tilvikum til að verjast þessu. Það er erfitt að koma graffíti á torf og grjóthleðslur og ef migið eða skitið er á þetta er það bara næring fyrir gróðurinn. Það er sennilega engin tilviljun hvað Íslendingar þrifust vel í torfbæjum!!

Veðrið, hvort sem er rok og rigning, hríðarkóf, snjór og hálka eða bara myrkur allan daginn, er allavega það leiðinlegt að fyrir flesta er algjört hámark að hægt sé að hjóla hálft árið. En auðvitað eru til naglar sem eru engir meðalmenn og geta hjólað um allt flesta daga.

En það er ekki bara veðrið sem ég hef í huga, það eru líka aðstæður og öryggi hjólreiðafólks. Það er ekkert gert ráð fyrir hjólandi fólki svo heitið geti í umferðarskipulaginu. Þetta veldur m.a. því að af öryggisástæðum þorir fólk ekkert að senda börnin á hjóli í skóla eða á íþróttaæfingar eða aðrar tómstundir. Í staðinn er endalaust verið að snatta með krakka á bílum og fyrir vikið er ræktuð hér upp hver kynslóðin eftir aðra sem þekkir ekkert annað en bíltúra til alls. Þetta er ferlega vitlaus hugmyndafræði sem þarf að breyta. En það er ekki hægt nema skapa til þess aðlaðandi aðstöðu. Mín tillaga í þessu eru yfirbyggðir hjólastígar.

Jón Pétur Líndal, 26.5.2010 kl. 21:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband