Er ekki kominn tími á að lögmenn setji gott fordæmi?

Enginn fagnar þessari árás á lögmann í morgun og vonandi tekst að bjarga honum. En það er umhugsunarefni að margir hafa séð þetta koma og varað við því á opinberum vettvangi. Við venjulegu fólki blasir það við að sá þjófnaður á eignum almennings sem stundaður er í landinu í gegn um gengislán, verðtryggingu lána, afskriftir til auðmanna og fleira er algjörlega óþolandi og ólíðandi fyrir duglegt og heiðarlegt fólk. Nú síðast hefur það bæst ofan á annað óréttlæti að fjármálastofnanir eru hættar að taka mark á Hæstarétti og fara í engu að dómum hans varðandi útreikning lána.

Lögmenn landsins hafa upp til hópa tekið þátt í þessu þjóðarráni og þegið glaðir stóran skerf af þýfinu undir því yfirskyni að þeir séu bara að vinna vinnuna sína. Þeir hafa sýnt það í verki að nútíma lögfræði snýst um það eitt að gera sér sem mestar tekjur af lögunum. Þeir una sér glaðir sem böðlar fjármagnsins svo lengi sem greiðslur berast.

Ég veit svo sem ekkert um aðdraganda þess ólánsatburðar sem varð í morgun en leyfi mér þó að setja hann í samhengi við áralanga atburðarás óréttlætis í landinu. Hvort sem þetta er rétt hjá mér eða ekki held ég að það sé kominn tími til að lögmenn líti í eigin barm og hyggji að hvort þeir hafi ekki skyldur til að hefja lögin upp úr því efnahagsböðlastarfi sem þau eru að mestu helguð nú orðið. Er ekki kominn tími til að lögmenn horfi til réttlætis fyrir landsmenn og að beita kunnáttu sinni í þágu almannahagsmuna fremur en hæstgreiðanda? Kemur það ekki lögmönnum til góða að lokum eins og öðrum að viðhalda réttarríki í stað þess að efla græðgisvæðinguna og óréttinn? Það er ekki merkilegt réttarríki þar sem menn mega nota þýfi til að kaupa sér varnir færustu lögmanna. Hvernig samrýmist slíkt siðferði lögmanna?

Setjið nú gott fordæmi og takið frumkvæði í að koma með lausnir á vanda þjóðarinnar í stað þess að láta fjármagnsöflin siga ykkur á þjóðina eins og hverja aðra handrukkara. Græðgin er að eyðileggja lögin í landinu, lögmennina og réttarríkið. Takið nú góða samvisku og gott líf fram yfir skyndigróða.


mbl.is „Allir eru harmi slegnir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill og sæll Jón Pétur; æfinlega !

Vel mælt; af þinni hálfu - og íhugunarverð orð, fyrir Lögmanna stéttina, sem og aðra landsmenn, svo sem.

Með beztu kveðjum; úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 5.3.2012 kl. 12:44

2 identicon

Ég hef grun um að þetta sé bara kveikjan.

Í eins siðspilltu landi og þessu, þar sem þetta fólk níðst á hinum almenna borgara alla daga, getur allt skeð.

Ég hef oft velt vöngum yfir því, síðustu árin, hvers vegna ekkert svona lagað gerist. "Er þjóðin orðin zombí?"

V.Jóhannsson (IP-tala skráð) 5.3.2012 kl. 12:51

3 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sælir og takk fyrir athugasemdirnar.

Það er ömurlegt að horfa upp á þá þróun sem er í þessu landi. Maður sér af viðbrögðum lögmanna við þessum atburði að þeir vilja helst huga að öryggismálum á vinnustöðum sínum. Á þeim er helst að skilja að þeir ætli að efla öryggisgæslu á lögmannsstofunun. Þá verða þeir líklega að gera það heima hjá sér í framhaldinu og eftir það að fara um göturnar í vopnuðum bílalestum. Er það framtíðin að lögmenn komi sjálfum sér í fangelsi af þessu tagi til að geta haldið áfram að berja á almenningi? Hvert er Ísland eiginlega að fara?

Jón Pétur Líndal, 5.3.2012 kl. 14:09

4 identicon

Það veldur mér velgju og viðbjóði að lesa þessi skrif þín Jón Pétur.

Þú skrifar: „Lögmenn landsins hafa upp til hópa tekið þátt í þessu þjóðarráni og þegið glaðir stóran skerf af þýfinu undir því yfirskyni að þeir séu bara að vinna vinnuna sína.“ Og síðan: „Er ekki kominn tími til að lögmenn horfi til réttlætis fyrir landsmenn og að beita kunnáttu sinni í þágu almannahagsmuna fremur en hæstgreiðanda? Kemur það ekki lögmönnum til góða að lokum eins og öðrum að viðhalda réttarríki í stað þess að efla græðgisvæðinguna og óréttinn? Það er ekki merkilegt réttarríki þar sem menn mega nota þýfi til að kaupa sér varnir færustu lögmanna. Hvernig samrýmist slíkt siðferði lögmanna?“

Í fyrsta lagi ertu að reyna að setja þessa tilraun til manndráps í það samhengi að fórnarlambið geti sjálfu sér um kennt. Slíkar vangaveltur lýsa siðblindu af verstu sort.

Í öðru lagi má lesa úr skrifum þínum fullkominn misskilning á lögfræði sem starfs- og fræðigrein. Hvers vegna?

  • Ekkert norðurlanda hefur fleiri lögfræðinga per íbúa en Ísland. Að lögðu því til grundvallar má slá föstu að allir hafi þann aðgang að lögfræðiþjónustu sem þörf er á.
  • Stjórnarskrá Íslands, Mannréttindasáttmáli Evrópu og meginreglur þær sem lagðar eru til grundvallar kröfum réttarríksins vinna að því að tryggja ÖLLUM réttláta málsmeðferð. Sama hvort ÞÉR þyki þeir vera glæpamenn eða ekki. Þetta eru grundvallarmannréttindi. Hér er rétt að ég minni þig á að öll mál hafa a.m.k. tvær hliðar.
    • Af þessu leiðir að það er siðferðileg skylda lögfræðinga að tryggja að þeir sem til þeirra leiti fái hljómgrunn fyrir hlutlægum og óvilhöllum dómstóli og fyllstu aðstoð við að styðja málsástæður sínar við lagaleg rök. Hér er rétt að ég minni þig á að í öllum málum fyrir Hæstarétti starfi lögfræðingar á báðum hliðum.
  • Um leið og lögfræðingur leggur dóm á mál sem honum er fært er að hann kominn útfyrir sínar starfsskyldur og -heimildir. Þá er hann orðinn hluti af dómstól götunnar, sem flestir geta sæst á að sé eitt mesta böl þjóðarinnar.

Þú finnur varla skýrara dæmi um að sendiboði sé skotinn þegar ráðist er á lögmann. Í þessu tilfelli var ráðist á framkvæmdastjóra lögfræðistofunnar svo betra væri að líkja þessu við að yfirmaður sendiboðans sem ráðinn var af þriðja aðila sé skotinn.

Þessi ræða þín er á kjánalega lágu stigi og þú mátt skammast þín.

Dagbjartur G. Lúðvíksson (IP-tala skráð) 5.3.2012 kl. 15:06

5 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Takk fyrir athugasemdina Dagbjartur. Mér finnst það nú undarleg skoðun hjá þér að vilja nú ekki staldra ögn við og sjá lögmannastéttina skoða stöðu sína í samhengi hlutanna.

Ég ætla ekki að skammast mín fyrir að hafa áhyggjur af lífi og limum fólks og þeim starfsháttum sem fá menn til svona óhæfuverka.

Ég er sammála þér um það að dómstóll götunnar er ekki þarfasti dómstóllinn. En nú virðist vera svo komið að einmitt fjöldi lögmanna standi að þeim dómstóli. Það hefur sannast ágætlega eftir nýlegan gengislánadóm Hæstaréttar. Hver hafa verið viðbrögð fjölda lögmanna við þeim dómi? Þeir hafa ráðlagt umbjóðendum sínum að fara ekki eftir honum og þannig gerst dómarar götunnar. Hafa sumir gert þetta undir því yfirskyni að það þurfi að túlka dóminn, hvað sem það nú þýðir. Lögmenn komast varla á lægra plan en þegar þeir hætta að taka mark á hæstarétti.

Það hefur engan tilgang að skammast í mér og öðrum sem hafa varað því hvert stefnir í þjóðfélaginu en ef þú hefur einhverjar skynsamlegar tillögur fram að færa þá væri það þarft. Það er bara besta mál ef þú hefur betri lausnir en ég.

Jón Pétur Líndal, 5.3.2012 kl. 15:34

6 identicon

Heyr heyr Dagbjartur. Manni flökrar umræðan.

Það réttlætir ekkert morðtilraun, EKKERT. 

"Ég ætla ekki að skammast mín fyrir að hafa áhyggjur af lífi og limum fólks og þeim starfsháttum sem fá menn til svona óhæfuverka" Jón Pétur

Jón Pétur, þú fullyrðir um þetta tilfelli og segir þeim starfsháttum sem fá menn til þessara voðaverka!!!  Í fyrsta lagi hefur þú ekki hugmynd frekar en við hin um aðstæður viðkomandi og í öðru lagi réttlætir ekkert morðtilraun.  Sama hvaða starfshættir eru.  Hugsa menn ekkert hérna áðaur en þeir skrifa?

Saklaus maður liggur á gjörgæslu eftir fólskulega árás glæpamanns.  Maður sem var að vinna starf sitt eins og við hin.  Fólk hérna á moggabloggi að reyna að "réttlæta" gjörðir mannsins og skilja þær vegna "ástands" þess sem er í samfélaginu.  Eru menn ekki með öllum mjalla!!

Baldur (IP-tala skráð) 5.3.2012 kl. 15:45

7 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Baldur. Maður liggur á gjörgæslu eftir fólskulega árás eins og þú segir. Viltu bara afgreiða þetta sem "venjulegt" glæpamál og sleppa því alveg að hugsa um hvað fær menn til svona verka? Ég skil ekki sinnuleysi þitt. Ég er ekki að réttlæta neitt, aðeins að furða mig á því fólki sem afneitar eða réttlætir það þjóðfélagsástand sem ríkir hér.

Fólk er ekki með öllum mjalla að láta sér þetta í léttu rúmi liggja. Af hverju má ekki ræða málið?

Jón Pétur Líndal, 5.3.2012 kl. 18:04

8 identicon

Er ekki verið að snúa út úr orðum Baldurs hér? Ég trúi ekki að nokkur sé að réttlæta atburð sem þennan og enginn á skilið að þurfa leggja líf sitt og limi að veði vegna starfa síns. Ég er viss um að þjóðin hugsar til þessarar manneskju sem fyrir árásinni varð með hlýhug og óskum um góðan bata henni til handa. En hjá því verður þó ekki komist að taka með í reikninginn að orsök þessa atburðar megi hugsanlega rekja til þess ástands sem ríkir í þjóðfélaginu. Óréttlætis og virðingarleysis gagnvart þegnum landsins. Og það hlýtur að mega segja það upphátt að mesta furða sé að atburður sem þessi hafi ekki gerst fyrr. Þar með er ég ekki að réttlæta atburðinn, aðeins að segja að við þessu mátti búast, það var aðeins tímaspursmál hvenær svona myndi gerast. Við skulum hafa í huga að hér og þar um landið er fólk sem komið er á tæpasta vað, örvinglað fólk sem oft á tíðum hefur engu að tapa. Þannig fólk er hættulegt í þjóðfélaginu og stjórnvöldum ber skylda til að búa svo um hnútana að allir geti lifað hér þokkalega sáttir.

assa (IP-tala skráð) 5.3.2012 kl. 20:46

9 identicon

það er margt sem er að koma hér fram og að sjálfsögðu taka einhverjir þann skilining á þetta að verið sé að lofsama hefndar aðgerðir. En það er ekki málið heldur er málið að skoða hvers vegna gerist svona.

Dagbjartur bendir réttilega á að við höfum stóran her lögfræðinga.

"Ekkert norðurlanda hefur fleiri lögfræðinga per íbúa en Ísland. Að lögðu því til grundvallar má slá föstu að allir hafi þann aðgang að lögfræðiþjónustu sem þörf er á."

þetta er hinsvegar rangt. Íslandi fær sá lögfræðiþjónustu sem hefur efni á henni. Til staðfestingar á því má horfa til þess að málskostnaður "hefðbundina glæpamanna" sem ekki geta keypt sér verjendur er alltaf tugum eða hundruðum þúsanda lægri heldur en hjá þeim sem hafa efni á lögfræðing.

Ég til dæmis þurfti að mæta bankalögfræðingum í gjaldþrota máli. Ég hafði ekki efni á lögfræði aðstoð enda var verið að gera mig gjaldþrota.

ég hafði heldur ekki efni á að fá lögfræðingin til að hjálpa mér með að fá réttlátar greiðslur úr lífeyris sjóði þegar ég endaði á örorku fyrir 12 árum síðan.

svona get ég talið um dæminn sem segja mér það að lögfræðingar eru fyrir þá sem hafa peninga ekki fyrir hina og í dag virðast það vera fjármálafyrirtækinn sem eiga peninga ...og einstaka fjárfestar(fjárglæpamenn) sem hafa efni á að verja sig og því fá þeir afskifaðar upphæðir sem venjulegt fólk jafnvel dreymir ekki um ..

og jú það er líka bent hér að margir hafa á síðustu vikum og mánuðum verið að benda á að þetta ætti eftir að gerast og þetta myndi aukast.

við þurfum rétlæti fyrir alla ekki bara þá sem hafa efni á því.

Hjörleifur Harðarson (IP-tala skráð) 6.3.2012 kl. 07:47

10 identicon

Jón Pétur, já ég afgreiði þetta sem venjulegt glæpamál.  Annað er þetta ekki.  Skv fjölmiðlum þá tók maðurinn lán fyrir vélhjóli sem hann hafði ekki greitt af og faldi þegar lánveitandi reyndi að sækja eign sína til baka.  Það er glæpur.  Svo ákveður hann bara að ráðast á einhvern, sá sem lendir í klóm hans liggur lífshættulega slasaður á gjörgæslu.  Hvernig dettur þér í hug að sjá þetta sem eitthvað annað en venjulegt glæpamál?  Eru einhverjar aðstæður í samfélaginu sem "buðu" uppá þetta?  Maður tekur lán fyrir vélhjóli og GREIÐIR ekki af því, er það ástandinu í þjóðfélaginu um að kenna.  Hvílík vitleysa og kjaftæði.

Fólk kemur hér og segir "við erum búin að bíða eftir að þetta gerðist".  Ég ítreka, sama hversu miklu óréttlæti maður telur sig hafa verið beittan réttlætir ekkert að myrða einhvern. 

Þetta er ógeðfellt glæpamál þar sem saklaus maður berst fyrir lífi sínu. 

Baldur (IP-tala skráð) 6.3.2012 kl. 10:47

11 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Baldur, málið er vissulega ógeðfellt. En það er ekki allt venjulegt við það. Maðurinn var allsgáður skv. fjölmiðlum og hann vill ekki verjanda, svo mikið er honum í nöp við lögmenn. Þetta er hvort tveggja mjög óvenjulegt.

Og það er full þörf á að ræða þetta mál og það réttarríki sem við búum við þar sem valtað er yfir fólk af lögmönnum og engum vörnum verður við komið nema punga út háum fjárhæðum til annarra lögmanna. Oft er það svo að það er sama hvað þú gerir og hvort þú vinnur eða tapar máli, þú tapar alltaf og því meira sem þú verst betur. Ég þekki þetta sjálfur ágætlega eins og margir fleiri. Nú er ég ekkert að fullyrða um þetta eigi við um þann atburð sem gerðist í gær. En það þarf að ræða málið og reyna að laga hlutina svo friður skapist í þjóðfélaginu. Er það ekki betra en að gerðaleysi?

Mín skrif endurspegla bara það sem ég heyri á fólki út um allt. Að halda því fram að ég sé að réttlæta árásina er rangt og skiptir engu máli frekar en þegar þú réttlætir óréttlæti lögmanna með því að það megi ekki bregðast við með að drepa þá eða meiða.

Málið er bara að þegar menn gera eitthvað svona alvarlegt, þá er yfirleitt einhver ástæða að baki. Ég er bara að velta ástæðunni fyrir mér og tel að skýringa sé m.a. að leita í efnahagsástandinu og starfsháttum lögmanna.

Jón Pétur Líndal, 6.3.2012 kl. 11:56

12 identicon

Hjörleifur, mér þykir sárt að þú hafir átt á brattan að sækja fyrir dómstólum og það er hárrétt að þeir sem eru vel efnaðir séu betur í stakk búnir til að mæta þeim kostnaði sem málsóknum fylgir. Undanfarin ár hefur þó margt breyst til batnaðar í þessum efnum. Til dæmis þiggur fjöldi lögfræðistofa, sem sérhæfa sig í bótamálum, einungis prósentu af þeim bótum sem fást sem greiðslu og krefjast einskis fram að því og einskis ef mál tapast. Einnig bjóða mörg tryggingafélög tryggingar fyrir málarekstri sem hluta af almennum tryggingum hjá sér. Þá reka nemendafélög lagadeilda beggja háskóla höfuðborgarsvæðisins ókeypis lögfræðiráðgjöf sem fólk getur leitað til til að ráðfæra sig áður en ákvörðun er tekin um að ráða lögmann.

Jón Pétur, þú heldur áfram að tala um að lögmenn valti yfir fólk og að starfshættir lögmanna séu ástæðan fyrir reiði í þjóðfélaginu. Að auki viltu að lögmannsstéttin skoði stöðu sína í samhengi hlutanna. Hérna ertu gróflega að hengja bakara fyrir smið. Hlutverk lögmanna fyrir dómstólum er að gæta hagsmuna og réttinda skjólstæðinga sinna. Þeir uppfylla þá kröfu réttarríkisins að tryggja að málsástæðum og lagarökum þess aðila sem þeir eru í málsvari fyrir sé veitt áheyrn fyrir óvilhöllum dómstól. Í deilum á milli manna, sem ekki fara fyrir dómstóla, er hlutverk lögmanna hið sama. Þeir gæta réttinda umbjóðenda sinna. Þeir leggja ekki dóm í mál sjálfir. Þeir eru ALLS EKKI ábyrgir fyrir lántökum manna eða kröfum lánadrottna um greiðslur. Þeir senda bréf, fara fram á nauðungarsölur og stefna mönnum vegna þess að krafa er um það frá aðila sem telur sig hafa lögvarinna réttinda að gæta. Þess vegna vísaði ég til þess í fyrra svari að verið væri að skjóta sendiboða.

Þú nefndir áður að lögfræðingar (sem heild?) hafi ráðlagt umbjóðendum sínum að fara ekki eftir dómi Hæstaréttar. Þarf að árétta við þig að Hæstiréttur fer ekki með löggjafarvald? Þegar Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu að ákveðinn lánasamningur hafi ekki staðist lög þarf tvennt að gerast. Löggjafinn þarf að bregðast við dóminum og lánadrottnar þurfa að endurreikna skuldir í samræmi við nýja framkvæmd réttarins. Úrræði fyrir lánþega eru engin fyrr en að þetta hefur átt sér stað (nú eða þegar þetta hefur verið vanrækt lengur en eðlilegt má teljast, en það hefur ekki gerst enn). Öll dómsmál eru atviksbundin. Þau eru bundin ákveðnum einstaklingum og sérstökum tilteknum aðstæðum. Hæstiréttur kveður EKKI upp dóma um almennar reglur sem varða allan almenning, heldur beitingu ákveðinna reglna við ákveðnar og afmarkaðar aðstæður. Að lánþegar lesi frétt um dóminn og ákveði að hætta að greiða af afborgunum er skammsýnt og getur leitt til mun verri stöðu fyrir einstaklinga en áður.

Annars er mér spurn hvernig heil stétt vinnandi manna, á mismunandi sviðum, eigi að endurskoða stöðu sína. Viltu að lögfræðingar á sviðum hugverkaréttar, alþjóðaréttar, umhverfisréttar, og öllum öðrum sem til greina koma, haldi eitt flennistórt lögfræðiþing þar sem nýjar starfsreglur verði settar? Ef svo er, hvað viltu að komi fram í þeim starfsreglum? Að ekki skuli ganga á eftir skuldum fyrir þá sem rétt eiga, skv. lögum settum af Alþingi Íslendinga? Að allir starfandi lögmenn verði skyldaðir til að vinna frítt 8 tíma á viku í þágu þeirra sem skulda umfram eignir? Að Kjartan galdrakarl sé vondur og honum skuli neitað aðstoð leiti hann álits lögfræðings?

Þú áttar þig á því að lögfræðingar starfa á öllum sviðum þjóðfélagsins, sem sérfræðingar í ráðuneytum, kennarar við háskóla, ráðgjafar tryggingafélaga og svo mætti lengi telja. Þú sagðir í upphafi að það væri „ekki merkilegt réttarríki þar sem menn mega nota þýfi til að kaupa sér varnir færustu lögmanna“ og spurðir síðan hvernig það samrýmdist siðferði lögmanna. Málið er bara að kröfur réttarríkisins eru þvert á móti þær að enginn taki sér í hendur hlutverk dómstóla nema dómarar sjálfir. Lögmenn eru, líkt og ég sagði áður, umboðsmenn fyrir aðilum sem eru bærir til að meta hvort umrætt fjármagn sé í raun réttri þýfi eða ekki.

Mér heyrist því miður í ræðu þinni að þú sért að rugla saman hlutverkum löggjafa, dómstóla og lánastofnana og skella skuldinni fyrir meintu óréttlæti allra þessara aðila gagnvart almenningi á framferði lögfræðinga (sem heildar?) í störfum sínum.

Dagbjartur G. Lúðvíksson (IP-tala skráð) 6.3.2012 kl. 14:32

13 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Dagbjartur. Í fjölmörgum iðngreinum svo dæmi sé tekið eru fagfélög. Þeir sem starfa í þessum greinum taka þátt í því að bæta gæði starfsgreinar sinnar, bæta vinnubrögð, innleiða nýjungar o.s.frv. Þetta er gert í þeim tilgangi að auka ánægju viðskiptavina með einstök verk og bæta ímynd greinanna út á við. Enda líta menn svo á að þeir séu í ákveðinni þjónustu við bæði verkkaupa og almenning sem einnig kann að koma að þessum verkum í gegn um viðskipti síðar meir eða þarf að þola umgengni við vinnustaði og nábýli við iðnaðarmenn á meðan á verkum stendur. Þannig þurfa menn að taka tillit til hagsmuna fjölmargra aðila við vinnu sína. Kúnninn er ekki sá eini sem hefur áhrif á vinnubrögðin. Ég tel að lögmenn mættu taka þetta til fyrirmyndar. Hafa þeir gert eitthvað í þessa veru? Það hefur farið fram hjá mér og fleirum.

Það hafa verið settar á laggirnar allskyns úrskurðarnefndir, t.d. um fjarskipta- og póstmál, útboðsmál, tryggingamál o.fl. Flestar eða allar þessar úrskurðarnefndir eiga það sameiginlegt að enginn þarf að fara eftir úrskurðum þeirra. Þær eru einungis einn þröskuldurinn og útgjaldaaukinn í viðbót á leið manna til réttlætis. Ég þekki þetta ágætlega af eigin raun því ég hef á undanförnum árum leitað til 3 mismunandi úrskurðarnefnda með óskyld mál. Tvær nefndir úrskurðuðu mér í vil í 2 málum. Einn úrskurður féll á hinn veginn. En ég er jafnt settur með alla úrskurðina. Þeir sem hafa fallið mér í hag eru jafn gagnslausir og sá sem féll á hinn veginn. Mótaðilinn tekur einfaldlega ekkert mark á úrskurðinum. Mér finnst nú að lögmenn mættu reyna að hafa áhrif á það að ekki sé verið að planta út um allt réttarkerfið úrskurðarnefndum sem eru almenningi fyrst og fremst til kostnaðarauka, tafa og trafala þó auðvitað auki þetta allt á vinnu og tekjumöguleika lögmanna. Þetta er nú ekki mjög faglegt og fáir betur til þess fallnir en lögmannastéttin að beita sér fyrir lagfæringum á þessu.

Af því að við erum að skrifast hér á um þá staðhæfingu mína "að það sé ekki merkilegt réttarríki þar sem menn mega nota þýfi til að kaupa sér varnir færustu lögmanna" þá sýnist mér að þar séum við að deila um sýn okkar á þetta frá ólíkum sjónarhóli. Þú bendir á kröfur réttarríkisins um að dómarar einir geti skorið úr þessu. Vissulega kannast ég við það sjónarmið og frasann um það að allir séu saklausir þar til sekt er sönnuð.

Ég er hins vegar að horfa á málið úr frá þeim sjónarhóli að þegar stór fyrirtækjasamsteypa eða banki svo dæmi séu tekin, hafa einhvern veginn tapað risafjárhæðum, jafnvel hundruðum milljarða. Þá er auðvitað einhver sem ber ábyrgð á því, er sekur um að hafa sólundað fé sem honum var treyst fyrir og hann hafði lofað að ávaxta eða geyma sem hlutafé, lánsfé eða sparifé eða lífeyrissjóð. Þannig að það er strax ljóst að einhver eða einhverjir eru sekir. Það þarf engan dómara til að finna út að glæpur var framinn. Féð er horfið og finnst ekki, rétt eins og ef brotist hefði verið inn og einhverju stolið. En vegna þess að í þessum málum virðist það regla að yfirmenn þessara félaga greiddu sjálfum sér mjög rífleg laun og fríðindi fyrir vel unnin störf þá hafa þeir allir digra sjóði að spila úr til að halda uppi vörnum. Slíkt er algjörlega óeðlilegt og ólíðandi. Þetta er eins og ef meintur morðingi fengi að verja sig eða ógna dómara í réttarsal með hnífi sem hann hefði tekið af fórnarlambi sínu. Þeir fjármálamenn sem hafa rænt þjóðina og sæta nú ákærum ættu að sjálfsögðu að þola frystingu eigna (þýfisins) og vera skipaður opinber verjandi í málum sínum rétt eins og venjulegir bankaræningjar með byssur og hnífa mega láta duga. Það er alveg ótækur sá háttur sem er á Íslandi að til séu ólíkar útgáfur af réttarfari eftir tegund glæpa og ávinningi af þeim. Þetta er nú eitthvað sem lögmenn mættu hafa forgöngu um að samræma.

Ég er nú ekki að rugla neinu saman. En ég er að draga fram að það er ekki nóg að einblína á lagabókstaf. Gott siðferði hlýtur alltaf að koma fyrst, lögin verða að taka mið af því. Þegar siðferðisvitund almennings og lögin eiga ekki samleið þá sýður upp úr. Það er ekki gott að setja lög um að rangt sé rétt. Ennþá verra er að framfylgja slíkum lögum. Þess vegna væri það skynsamlegt af lögmönnum að beita sér fyrir því að þetta falli saman. Ég veit vel að löggjafarvaldið setur lögin og dómstólar kveða upp úr um ágreining. Akkúrat núna eru tímar þar sem lögin vinna gegn almannahagsmunum og ágreiningur um þau er mikill. Lögmenn eru eins og þú segir starfandi úti um allt og ættu að geta beitt sér til góðs ef áhugi er fyrir hendi.

Jón Pétur Líndal, 6.3.2012 kl. 19:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband