Efnahagsleg helför í USA, Evrópu og á Íslandi.

Bandaríkin og Evrópa, líka Ísland, eru öll í efnahagslegri helför. Þetta sjá auðvitað flestir skynsamir menn sem gefa sér tíma til að stúdera málið. Ástæðurnar fyrir þessari helför eru frekar einfaldar og augljósar, einfalt er að laga hlutina en það er samt ekki gert.

Grunnástæðan í þessu öllu er auðvitað græðgi og spilling. Græðgin í fjármálakerfinu og spillingin í stjórnmálamönnum sem hafa verið auðkeyptir af fjármálakerfinu og gráðugum bisnissmönnum.

En ef við skoðum betur þessar fullyrðingar mínar og hvaða rök ég hef fyrir þeim þá má telja upp eftirfarandi sem er þó ekki tæmandi listi:

1. Hratt vaxandi misskipting veraldarauðsins, sá litli hópur sem á mest nær til sín stækkandi hluta fjármuna, meira að segja núna í kreppunni, svo mikil er græðgin. Á móti er hinn hópurinn, þorri manna, sem sífellt á minni hluta fjármuna og er að missa eignir sínar og atvinnu og getur ekki framfleytt sér. Þetta á við á Íslandi jafnt sem í Evrópu og USA.

2. Uppbygging fjármálakerfisins. Peningar eru búnir til með skuldum og margföldunaráhrifum skuldapeninganna í fjármálakerfinu, ekki framleiðslu. Með því að búa til endalausa peninga með skuldum, auka framboð af lánsfé án þess að lækka vextina um leið er einfaldlega verið að færa stóraukið fé frá lántakendum til lánveitenda með vaxtagreiðslum af peningum sem ekki eru raunveruleg verðmæti. Þetta er gert án þess að fjármálakerfið hafi í raun átt nokkra peninga til að lána, þeir voru bara búnir til með því að búa til skuldir. Þetta er bara risa svindl. Almenningur allra landa er að fara á hausinn af því að hann er síðasti hlekkur í svindlinu og á að bera af því kostnaðinn. Svindlið er alveg að ganga upp sem slíkt.

3. Völdin færast fjær almenningi, lýðræðið er alveg að fjara út. Stjórnmálamenn eru flestir annað hvort spilltir eða vitlausir. Þeir hafa ánetjast spillingu sem kemur m.a. fram í að þeir eru kostaðir af ýmsum sérhagsmunaöflum, aðrir eru vitleysingar sem m.a. kemur fram í að þeir eru málpípur "flokkanna", eru helteknir af flokksstefnunni og flokksdýrkun í stað þess að hafa sjálfstæða hugsun og að hlusta á kjósendur. Og svo er alltaf verið að færa meiri völd frá almenningi og kjörnum stjórnmálamönnum til ríkjasambanda og alþjóðastofnana eins og best sést í ESB.

4. Fjölmiðlarnir, stundum kallaðir fjórða valdið, eru keimlíkir stjórnmálamönnum. Ýmist spilltir eða undir hælnum á eigendum sínum sem gjarnan nota þá í áróðursskyni og til að styðja annað gróðabrall, eða þá bitlausir vegna þess að þeir þora ekki að gagnrýna eða eru of vitlausir til þess. Þess vegna eru fjölmiðlar í dag frekar notaðir sem áróðurstækil, afþreying og róandi lyf á almenning, en ekki sem málsvari almennings og til að fræða fólk um það sem raunverulega er að gerast í heiminum.

5. Menntakerfið hefur algjörlega floppað á hagfræði og stjórnmálasviðinu. Það er frosið fast í aldagömlum kenningum og hugsunarhætti. Hagfræðin byggir fyrst og fremst á nokkrum lítt rökstuddum, ævagömlum og úreltum formúlum sem hagfræðingar flagga sí og æ en gera lítið til að sannreyna í nútímanum. Þessum formúlum er oft beitt til að segja almenningi hvað sé hægt að gera og hvað ekki, en fjármálakerfið starfar á allt annan hátt og utan við þessar formúlur. Þær eru eingöngu notaðar til að kenna í háskólum og til að bregðast við kvörtunum almennings þegar hann sér verðmætasköpun sína hirta af bröskurum í bankakerfinu.
Stjórnmálafræðin virðist bara snúast um flokkspólitík og hvernig henni verði best viðhaldið og hvernig megi telja fólki trú um að flokksræði sé lýðræði. Það þykir gjaldfella stjórnmálafræðing ef hann lætur frá sér fara hugmyndir um að til séu aðrar gerðir af stjórnmálastarfi og lýðræði en þetta gamla flokksræði. Svo mikill er miðaldahugsanahátturinn þar.

6. Mannlegt eðli. Þegar menn fara almennilega að skilja það að það er búið að svindla svona mikið á þeim og að stjórnmálamönnum er svo sama um kjósendur að þeir tryggja ekki að almenningur geti framfleytt sér og sínum sómasamlega getur ekkert annað gerst en að fólk rís upp og gerir vopnaðar byltingar. Mér finnst heimskulegt að í slíkt skuli stefna á þeirri upplýsingaöld sem nú er, en sennilega eru einhver gróðatækifæri ennþá í byltingum og styrjöldum og þess vegna kæra menn sig kollótta um mannslífin.

Það er því ekki hægt að kalla þetta stjórnmála- og efnahagskerfi sem við búum við neitt skárra en efnahagslega helför.


mbl.is Efnahagslegt lestarslys yfirvofandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband