Svona umræða er nauðsynleg og góð fyrir okkur, tökum þátt í henni.

Ég tek undir með þeim sem telja að Ólafur Ragnar og Steingrímur hafi staðið sig vel í sjónvarpi í Bretlandi í kvöld. Nú er loksins verið að koma sjónarmiðum Íslands almennilega að í þessari umræðu á heimavelli Breta. Það er afar nauðsynlegt til að hægt sé að ná við þá sanngjörnum samningum.

Ég prófaði sjálfur að gefa komment á grein á Times Online í gær og lýsa þar mínum sjónarmiðum. Viðbrögð láta ekki á sér standa og það kom skemmtilega á óvart, á þessum degi þegar allt varð hálf vitlaust eftir því sem fjölmiðlar hér hermdu, að þeir sem hafa verið að lesa þetta og gera athugasemdir hafa verið mjög jákvæðir í garð Íslendinga og skilja að það þarf að kafa dýpra í þetta mál en bara að krefjast þess að Íslendingar borgi.

Hér er tenging á þessa grein.
http://business.timesonline.co.uk/tol/business/industry_sectors/banking_and_finance/article6977039.ece

Það eru fleiri Íslendingar sem koma stundum inn í umræðuna í Bretlandi eins og m.a. má sjá þarna á Times Online. En þetta er bara of lítið og handahófskennt.

Ég vil því skora á bloggara og þá sem lesa þetta að taka þátt í umræðunni í Bretlandi, eftir því sem þið treystið ykkur til, setja fram sjónarmið Íslendinga og gera Bretum grein fyrir okkar málstað. Taka á þessu með stjórninni nú þegar hún er loksins komin í réttan gír. Sýna samstöðu.
Kannski ættum við að skipta með okkur verkum, þannig að 1-2 bloggarar taki að sér að fylgjast með efni tiltekins fjölmiðils í Bretlandi og gera athugasemdir eða koma að efni eftir því sem hægt er til að koma okkar sjónarmiðum að. Þetta væri líka gott að gera í Hollandi, en sjálfsagt afar fámennur hópur sem hefur tök á því tungumálanna vegna. Nú er gott tækifæri til að láta í sér heyra á meðan talsvert er fjallað um málefni Íslands út af þessari fyrirhuguðu þjóðaratkvæðagreiðslu. Menn skilja það nú margir að það stendur í Íslendingum að borga það sem Bretar krefjast. Fólk vill gjarnan vita hvers vegna svo er og ef það er útskýrt vel þá skilja menn það líka vel.


mbl.is Ólafur í kröppum dansi á BBC
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Ólafur stendur sig gríðarlega vel, hann veit alveg hvað hann er að gera og getur svo sannarlega komið okkar málstað vel til skila. En það var ömurlegt að sjá úrklippuna með forsætisráherranum okkar, hún er náttúrlega afar vonsvikin eftir að hafa tapað sínu eina baráttumáli sem var að koma Íslandi í ESB. Hefur Samfylkingin eitthvað erindi í ríkisstjórn núna? Eru þau ekki alltof löskuð eftir ESB aðildartapið  til að geta unnið þjóðinni gagn?

Steingrímur stendur sig vel og núna þarf hann að virkja Ögmund með sér.

Guðrún Sæmundsdóttir, 7.1.2010 kl. 12:41

2 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæl Guðrún og takk fyrir athugasemdina. Samfylkingin mat aðstæður til ESB umsóknar illilega vitlaust þegar þau töldu að nú væri hentugur tími til slíks. Það sem við höfum verið að uppgötva undanfarið í samskiptum okkar við umheiminn varðandi ESB er að umsóknin er notuð óspart til að kúga af okkur fé í Icesave hítina og allt annað sem útlendingar þykjast eiga sökótt við Íslendinga. Það byggist náttúrulega á því að Bretar og fleiri halda að það sé raunverulegt kappsmál Íslendinga að komast í ESB. Sem betur fer er það ekki svo, þetta er fyrst og fremst óskiljanlegt gæluverkefni Samfylkingarinnar sem skilur ekkert um hvað ESB snýst. Þau virðast halda að þetta sé einhver góðgerðaklúbbur sem útdeili fé og velsæld til aðildarríkjanna. Þangað sé hægt að sækja eitt og annað og allt mögulegt og bjarga hvers konar vitleysu. Á móti virðast núverandi aðildarþjóðir ESB líka halda að það sé eftirsóknarverðasti hlutur í heimi fyrir þjóðir utan ESB að ganga í þann klúbb. Á þeirri forsendu halda þeir að Íslendingar geri allt sem fyrir þá er lagt til að komast þangað inn. þetta er allt saman dáldið mikil 2007 hugsun. ESB aðild á að fylgja þvílíkt eilífðar góðæri að það jafnast líklega á við góðæri íslensku bankanna sem venjulega tvöfölduðu hagnað sinn og stærð á milli ára. En nú vitum við hvernig þar var í pottinn búið.

Jón Pétur Líndal, 8.1.2010 kl. 01:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband