18 mánaða bið. - Er þetta upphafið að endinum á biðinni?

Ef dugur væri í yfirvöldum landsins þá hefði verið byrjað að stinga mönnum úr útrásinni í gæsluvarðhald fyrir 18 mánuðum síðan, í október 2008. Kannski er þetta loksins að gerast núna. Þá á ég við að vonandi er þetta bara byrjunin, það þarf að sækja miklu fleiri. Ekki svo að skilja að það sé mér neitt gleðiefni að þessir menn séu læstir bak við rimla, síður en svo. Ég hálf vorkenni þeim og sérstaklega þeirra aðstandendum. En miðað við afleiðingar af veru þessara manna í bönkunum og viðskiptalífinu sem hafa verið kallaðir útrásarvíkingar þá er bara bráðnauðsynlegt að vista þá bak við lás og slá á kostnaði ríkisins. Það er öllum læsum og hugsandi mönnum ljóst að bankarnir og mörg fleiri fyrirtæki voru rekin eins og hver önnur glæpamafía og bankarnir svo að lokum rændir innanfrá. Þetta vitum við öll að er ekki eðlilegt sama hvaða lögfræðibulli er beitt til að verja þetta. Þess vegna verða eigendur og stjórnendur að sæta ábyrgð bak við lás og slá.

Það sem maður óttast mest núna er að þessi silagangur stjórnvalda við að taka á málinu sé búinn að kosta gríðarlegar fjárhæðir í nýjum fléttum og undanskoti fjármuna á þessum 18 mánuðum sem fóru til spillingar. (Eða til spillis eins og það var víst yfirleitt kallað hér áður fyrr)

Ljósi punkturinn í þessu er þó sá að vonandi kemur fleira í ljós þegar þessir eru yfirheyrðir þannig að hægt verði að rekja slóðina áfram.

Svo eru það undanbragðafléttur annarra, stjórmálamanna og embættismanna, sem þarf að hafa áhyggjur af. Nú koma þeir allir til með að reyna að skýla sér á bak við fjaðrafokið út af þessum handtökum. Láta eins og nú sé búið að nappa sökudólgana og allir aðrir séu saklausir. En þeir mega heldur ekki sleppa, tjónið er allt of mikið til stjórnsýslan sleppi við að sæta ábyrgð. Við verðum að halda pressu á þetta vanhæfa og spillta lið á Alþingi og í embættismannakerfinu. Það má ekki linna látunum fyrr en búið er að taka á þeirra hlut í hruninu líka.

Eitt það áhrifamesta í spillingunni á Alþingi frá hruni er það sem m.a. ég hef bloggað um nokkrum sinnum og loksins komst í fréttaumfjöllun í gær, að stjórnmálamenn stálu 1500-2000 milljörðum af skattgreiðendum til að gefa þeim sem höfðu tapað peningum sínum í viðskiptum við glæpamennina í bönkunum. Þetta er risastór ríkisþjófnaður sem þarf að taka á. Þarna fengu örfá prósent landsmanna gefna 1500-2000 milljarða frá ríkinu. Okkur hinum er sagt að þegja bara og borga okkar skuldir með 20-30% vöxtum og verðtryggingu ofan á stórhækkaða skatta og aðra rányrkju ríkisstjórnarinnar. Svei þessu auma liði og megi bölvun fylgja því út yfir gröf og dauða verði þetta ekki leiðrétt.

Sé það vilji ríkisins að gefa 2000 milljarða er best að það dreyfist jafnt á alla. Sé það vilji ríkisins að bæta eignarýrnun út af hruninu er best að það eigi við um allar eignir. En það er ekki í anda Hróa hattar eða nokkurrar skynsemi að ríkið geri ræningjaflokka út á þá efnaminni til að bæta hag þeirra alríkustu eins og hér hefur verið gert.


mbl.is Kaupþingsmenn í gæsluvarðhald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband